(354) 486 8966 
Garðyrkjustöðin Akur, Laugarási,
801 Bláskógarbyggð, Ísland

Frá draumum um jakkaföt og ríkidæmi til ylræktar

Ekki er úr vegi að byrja á því að spyrja Þórð hvort hann sé úr Tungunum, fyrst hann sé þar búsettur.

Nei, ég er Reykvíkingur, fæddur 10. júlí 1955. Reyndar fæddist ég á Eiríksgötunni en ólst upp vestur á Hjarðarhaga. Þangað flutti fjölskyldan þegar ég var á öðru ári og þar var ég þangað til ég flutti að heiman.

Var eitthvað í uppvextinum sem beindi þér á braut lífrænnar ræktunar?

Já, svona óbeint. Móðir mín, Fjóla Finnbogadóttir, er mikil náttúrumanneskja og hylltist að málefnum Náttúrulækningafélagsins og þeirri hugmyndafræði, sem þar býr að baki. Hún er úr Vestmannaeyjum og þar var amma, Sesselja Einarsdóttir, ein af fáum sem ræktuðu sitt kál og sín tré í saltrokinu. Mamma átti því ekki langt að sækja þessar garðræktarhugmyndir sem tengjast heilbrigði og hollustu og ég þar af leiðandi ekki heldur. Ég minnist þess úr æsku að það voru alltaf til þurrkaðir ávextir og hún bakaði sitt brauð sjálf. Við systkinin ólumst því upp við hollt fæði. En það var ekki beinlínis í takt við tímann. Nýir siður voru að ryðja sér braut og krakkar vildu frekar kók og franskbrauð. Hún þótti því nokkuð gamaldags, segir Þórður og hlær. Já, hún hélt í gamlar hefðir en það átti nú ekki upp á pallborðið á þeim tímum.

Áttir þú þér garðholu að rækta í á bernskuárunum?

Ég er yngstur af fjórum systkinum. Og það þarf náttúrlega ekki að taka það fram að mútta sendi okkur öll í Skólagarðana inni við Alaska, neðan við Hringbrautina. Bróðir minn, sem er þremur árum eldri en ég, missti áhugann þannig að ég tók við af honum. Ég var að vísu allt of ungur til að mega fara í Skólagarðana en ég var sendur þangað til að sinna hans störfum. Ætli ég hafi ekki verið átta eð níu ára gamall þegar þetta var. Og þarna ílengdist ég í ein fjögur ár. Þar kynntist ég sem sagt garðyrkju af eigin raun. En þetta voru mín einu kynni af garðyrkju og satt að segja átti landbúnaður og ræktun ekki upp á pallborðið hjá mér á mínum yngri árum.

Jakkaföt og peningar

En einhverjar framtíðaráætlarnir hefurðu væntanlega haft?Já, en ekki á þessari braut, svarar Þórður ákveðið. Ég fór að vísu í sveit þegar ég var fjórtán ára og það var mjög gaman. En það dugði ekki til að draga mig að landbúnaði. Eftir að ég lauk landsprófi frá Hagaskóla fór ég í gamla menntaskólann, MR. En einhvern veginn átti ég ekki heima þar og hætti námi. Eftir það fór ég að vinna, en hafnaði svo í Verslunarskólanum og tók stúdentsprófið þar. Ég ætlaði sem sagt að verða maður í jakkafötum og með peninga, segir Þórður og hlær hjartanlega.

Var það ekki spennandi viðfangsefni, þegar á átti að herða?

Jú, ég var alveg inni á þessu fyrstu árin í Versló. En svo sá ég að þetta var ekkert spennandi. Samt fannst mér að ég ætti það inni, að klára stúdentinn, svo ég gerði það. Eftir það var ég hálfáttavilltur og vissi svo sem ekkert hvað ég átti af mér að gera, fyrst mig langaði ekki lengur að verða ríkur. Einhverra hluta vegna lá leiðin til Noregs, þar sem ég var í eitt og hálft ár, aðallega í byggingarvinnu. En þarna í Noregi kynntist ég með tíð og tíma lífrænni ræktun og þeirri hugmyndafræði sem er á bak við hana. Samt var það nú ekki svo að ég ætlaði að leggja þetta fyrir mig. En þarna voru mín fyrstu kynni af Rudolf Steiner og fræðum hans.

Rudolf Steiner og fræði hans

Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi, að þú segir lítillega frá Rudolf Steiner.Nei, svarar Þórður, það er kannski ekki svo vitlaust. Rudolf Steiner var austurrískur guðspekingur. Hann fæddist árið 1861 og dó árið 1925. Hann var frá unga aldri mjög andlega þenkjandi og lét þau málefni mjög til sín taka. Eftir að hafa verið virkur í guðspekihreyfingunni í hinum þýskumælandi heimi stofnaði hann sína eigin hreyfingu upp úr aldamótunum. Djúpur ágreiningur kom fram milli Steiners og guðspekihreyfingarinnar til ýmissa mála og því klauf hann guðspekihreyfinguna og stofnaðir antroposofiska félagið.

Nú, en kenningar Steiners byggjast á því sem á íslensku kallast mannspeki og fjallar um tengsl manna við guðdóminn. Einn liður í þessari kenningu er náttúruleg ræktun jarðar. Annað atriði í kenningum Steiners er uppeldisfræðin, sem stunduð er í svo kölluðum Steinerskólum, sem einnig eru kallaðir Waldorfskólar. Þar er mikil áhersla lögð á listsköpun með það að markmiði að þroska tilfinningalíf og sjálfstraust nemenda. Sólheimar í Grímsnesi voru stofnaðir út frá hugmyndafræði Steiners enda er sterk hefð fyrir því innan mannspekihreyfingarinnar að annast kennslu þroskaheftra. Og það er gaman að geta sagt frá því að Sólheimar eru elsta heimili sinnar tegundar á Norðurlöndum, en Sesselja Sigmundsdóttir hóf starfsemina þar árið 1930.

Annars barst þessi starfsemi ekki til Norðurlanda fyrr en eftir að nasistar komust til valda í Þýskalandi 1933. Þá hraktist hún undan þeim norður á bóginn. En það er ógerlegt að gera grein fyrir kenningum Steiners í stuttu máli. Það sem heillaði mig í sambandi við hann er það að hann tengir heimspeki sína verklegum þáttum. Steiner kom víða við. Fyrir utan jarðrækt og uppeldisfræði fjallar hann meðal annars um læknisfræði og lyfjafræði. Því má heldur ekki gleyma að mannspekin felur í sér sterka kristna trú. Og sú trú er í nánari tengslum við daglega lífið en víða annars staðar. Ég verð nú að játa að ég hef svo sem ekki kafað mjög djúpt í þessi fræði enda þótt ég hafi á sínum tíma tekið þátt í leshringum. Ég læt mér nægja þessi tengsl við daglega lífið. En sem sagt í Hveragerði heyrði ég um Järna í Svíþjóð. Þar er Rudolf Steiner-Seminar, sem er skóli, sem byggist á hugmyndafræði mannspekinnar. Þar fer fram kennsla í öllum þessum fræðum, t.d. garðyrkju og kennslufræðum, bæði hvað varðar heilbrigða og fatlaða. Og þar er kennsla í listum, meðal annars listdansi til lækninga. Það lá því beint við að fara til Järna eftir námið í Hveragerði enda var þar um eins konar framhaldsnám að ræða.

Frá Hveragerði til Järna

Þú nefnir Hveragerði, hvað varstu að gera þar?Þegar ég kom heim til Íslands, svarar Þórður, þá var það þannig, að ég var farinn að aðhyllast bæði neyslu og ræktun grænmetis. Ég rak mig á það að hér gekk maður ekki að lífrænt ræktuðu grænmeti sem vísu úti í búð. Og þá fékk ég áhuga á að hefja ræktun sjálfur. Í kjölfar þess sótti ég um að komast í nám í Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði. Og það gekk, þannig að ég flutti austur með fjölskylduna. Þá var ég sem sagt orðinn fjölskyldumaður, með konu og eins árs gamalt barn. Konan mín heitir Karólína Gunnarsdóttir og er ættuð úr Keflavík og alin upp þar og á Egilsstöðum. Ég byrjaði á því að fara í verknám hjá Gesti Eyjólfssyni garðyrkjubónda. Þarna urðu mín fyrstu alvöru kynni af garðyrkju. Ég vann hjá Gesti í eitt ár og líkaði vel. Á þessum tíma komst ég í kynni við heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins og lífræna ræktun. Þar sótti ég um vinnu og fékk hana. Þarna vann ég svo næstu þrjú árin, samhliða Garðyrkjuskólanum. Í Garðyrkjuskólanum var ég á árunum 1982 til 1984 en hjá Náttúrulækningafélaginu byrjaði ég að vinna árið 1981. Það var á þessum árum mínum í Hveragerði, sem ég byrjaði fyrir alvöru að velta fyrir mér kenningum Rudolfs Steiners. Það tengist heilsuhælinu að því leyti að bæði Niels Busk garðyrkjustjóri, aðrir starfsmenn og þeir sem voru í verknámi, aðhylltust þessar kenningar. Þarna í Hveragerði var leshringur, heima hjá Möggu prjón, Margréti Aðalsteinsdóttur. Þar hittumst við reglulega og lásum saman og "fílósóferuðum" um mannspeki Steiners. Nú, nú, bætir Þórður við og heldur áfram: Þegar ég hafði lokið námi í Garðyrkjuskólanum, lá beinast við að fara til Järna og stúdera fræðin nánar enda var þar um eins konar framhaldsnám að ræða, eins og ég sagði áðan. Ég sótti um að komast að í garðyrkjuskóla og það gekk. Þarna lærði ég lífræna ræktun í tæpt ár. Eftir það fór ég að vinna við lífrænan landbúnað þarna í nágrenninu. Þar er auðvitað mikil lífræn ræktun en einnig kennsla fyrir fatlaða og þá bæði þroskahefta og geðfatlaða, auk þeirra sem þjást af líkamlegri fötlun. Bakarí er einnig rekið þarna, smíðastofur og ýmis önnur starfsemi, sem tengist hugmyndafræði mannspekinnar. Það er óhætt að segja að Järna sé nokkurs konar Mekka Norðurlanda, hvað varðar mannspekina.

Og þetta er allt rekið enn?

Já, þetta er allt rekið enn þann dag í dag. Að vísu var gerð heiftarleg atlaga að starfseminni þarna þegar allir áttu að flytja í sambýli. Sú hugmyndafræði náði einnig hingað til Íslands. Ég man að þegar við fluttum heim lentum við í þessu á Sólheimum. Þá var stefnan sem sagt sú, að fatlaðir áttu að flytja í "eðlilegt" samfélag og búa þar í sérstökum einingum í bæjum og borgum. Þetta fólk mátti alls ekki vera til sveita því það átti að lifa "eðlilegu" lífi en ýmsir telja að slíkur lifnaður þekkist ekki nema í þéttbýli. Helst áttu ekki að vera fleiri en þrír til fjórir á hverju sambýli. Meðan þessi stefna reið yfir áttu mannspekiheimilin eins og t.d. Sólheimar illilega undir högg að sækja. Í Järna lá t.d. við að öllum vistheimilum fyrir fatlaða yrði lokað svo heiftarlegt var þetta. Það fór mikill tími og ómæld vinna í að finna málamiðlun. En það tókst að bjarga málum fyrir horn. Ég held að þar hafi það vegið þyngst að hægt var að sýna fram á mjög árangursríkt starf mannspekiheimila með fötluðum. Sá árangur fólst ekki síst í því að samkvæmt kenningum mannspekinnar er t.d. geðfötluðum hjálpað við að leita að sínu innra "sjálfi" í stað þess að dæla í þá lyfjum sem hindra þá í þeirri leit. Lyfjanotkun var að vísu til en í algjöru lágmarki. Þess í stað var reynt að toga fram sjálfsvitund fólks með aðstoð handverks og lista. Fram hjá árangrinum af þessu starfi var ekki hægt að horfa.

Á Sólheimum í Grímsnesi

En þessi bylgja sambýla náði sem sagt hingað til lands?Já, hún gerði það. Þegar við fluttum frá Svíþjóð 1987 settumst við að á Sólheimum. Ég tók við garðyrkjunni en Karólína fór að vinna í vefstofunni. Sólheimar eru þannig samfélag að þar vinna allir saman og búa saman, bæði fatlaðir og eins ófatlaðir starfsmenn. En sem sagt, um það bil sem við komum þarna til starfa stóð til að flytja alla fatlaða heimilismenn í burtu og dreifa þeim á sambýli. Sólheimar börðust því hreinlega fyrir lífi sínu. Þarna gekk á með stöðugum opinberum útektum á starfseminni, hvernig vistfólkið hefði það og þar fram eftir götunum. Þetta var í raun og veru hrein atlaga. En Sólheimar lifðu hana af, ekki síst vegna þess að sambýlishugmyndin þróaðist yfir í sérbýlishugmynd. Þá átti að útvega hverjum og einum eigið húsnæði í svo kölluðu "eðlilegu" umhverfi, þ.e.a.s. í þéttbýli, væntanlega til þess að allir yrðu jafn "eðlilegir", segir Þórður hlæjandi. Á þessu var fundin sú lausn að vistmennirnir á Sólheimum búa nú flestir í sérbýli en á staðnum og taka eftir sem áður fullan þátt í starfinu þarna. Svo er annað svona heimili sem er Skaftholt uppi í Gnúpverjahreppi. En það er mun minna en Sólheimar. Ætli vistmenn þar séu ekki um átta talsins en á Sólheimum eru þeir um fjörutíu. Með starfsfólki eru þarna um eitt hundrað manns.

Hefur þú starfað á Skaftholti?

Við vorum þrjú ár á Sólheimum og kynntumst þá auðvitað starfseminni í Skaftholti, en hún byrjaði um 1980. Reyndar hafði Guðfinnur Jakobsson, sem var einn þeirra, sem byggðu upp starfsemina í Skaftholti, verið með okkur í leshring í Hveragerði og þar mynduðist tengsl sem svo styrktust á árum okkar á Sólheimum. M.a. vorum við tveir starfsmenn á Sólheimum sem tókum að okkur að koma upp sumarhúsi í Skaftholti sem notað er fyrir gesti og gangandi en mikil húsnæðisekla var þar. Haustið 1990 fluttum við svo þarna upp eftir en vorum þar aðeins einn vetur. Það var aðallega aðstöðuleysið sem réð því að við vorum þar ekki lengur. Fjölskyldan hafði nú stækkað og börnin voru orðin þrjú og var nokkuð þröngt um okkur þarna í Skaftholti. Það var í kjölfar þessa sem við fórum að leita að garðyrkjubýli enda höfðum við þá tekið þá stefnu að verða garðyrkjubændur með lífræna ræktun án þess að tengjast um leið meðferð fatlaðra.

En var það ekki frávik frá hugmyndafræði Steiners?

Alls ekki, hún er ekki bundin við að vinna með fötluðum. Það er bara einn þáttur í henni, en óneitanlega mjög sterkur. Kringum aldamótin og langt fram á þessa öld voru fatlaðir, hvort heldur um var að ræða andlega eða líkamlega fötlun, gjarnan vistaðir á stofnunum sem í raun voru fangelsi eða geymslustaðir. Nú hafa viðhorf almennings til fatlaðra breyst til betri vegar þótt enn þá sé vissulega þörf fyrir stofnanir á borð við Sólheima. En hvað um það, við ákváðum að standa á eigin fótum og fórum að svipast um eftir jörð og enduðum hér á Akri í Laugarási, sem var þá 1.100 fermetra garðyrkjustöð í tveimur gróðurhúsum.

Óhefðbundinn búskapur

Var hér lífræn ræktun þegar áður en þið komuð hingað?Nei, hér hafði verið hefðbundin ræktun, þegar við komum hingað haustið 1991. Sá sem var hér á undan okkur ræktaði gúrkur í steinull. Okkar fyrsta verk var því að hreinsa steinullarmottur og plast út úr húsunum. Því næst þurfti að vinna jarðveginn upp á nýtt. Það er þannig í lífrænni ræktun að það fara að minnsta kosti tvö ár í það að aðlaga jarðveginn lífrænu ræktuninni. Við byrjuðum strax á endurbótum í öðru gróðurhúsinu en það tók okkur fjögur ár að fá alla stöðina vottaða sem lífræna.

Hvað eru margir bændur með lífræna ræktun hér á landi?

Við erum nú ekki margir. Ef við tökum með þá sem eru með lífræna útiræktun, en þeir rækta aðallega kál, þá eru þetta svona tólf bændur. Lífræn ylrækt fer aðeins fram á fimm stöðum, á Sólheimum í Grímsnesi, í Skatfholti í Gnúpverjahreppi, á Náttúrulækningahælinu í Hveragerði, á Engi í Biskupstungum og hér á Akri. Auk þess eru nokkrir, sem eru með þetta í hjáverkum. Þess utan eru bændur sem eru með lífrænan sauðjárbúskap og nautgripabúskap. Svo eru einhverjir að safna neyslujurtum uppi til fjalla. Þetta er fámennur hópur en fer stækkandi og flóran er fjölbreytt, segir Þórður, fullur bjartsýni.

Selur þú framleiðslu þína beint eða í gegnum dreifingarfyrirtæki?

Þar til við fengum vottun um lífræna ræktun, seldum við í gegnum dreifingarfyrirtæki. En þegar vottorðið kom treysti fyrirtækið sér ekki til að dreifa fyrir okkur á lífrænum forsendum þar sem það taldi ekki markað fyrir lífrænt ræktaðar afurðir. Þá fórum við að þreifa fyrir okkur sjálf, fyrst og fremst hjá heilsuverslunum og kaupmanninum á horninu. Stórmarkaðirnir voru alveg lokaðir fyrir þessu. Þetta var í kringum árið 1994. Nú, svo kom nýtt dreifingarfyrirtæki, sem við áttum skipti við. En það gekk ekki til lengdar, árangurinn var einfaldlega ekki nógu góður. Þá fórum við alfarið út í beina markaðssetningu og reyndum aðallega að tala okkur inn á stórmarkaðina. Það tók langan tíma og kostaði mikla vinnu en að lokum náðum við samkomulagi við Nýkaup. Við drógum okkur þar með út úr viðskiptum við dreifingarfyrirtækið en þar höfðum við aðeins fengið sama verð fyrir afurðir okkar og þeir sem voru í hefðbundinni ræktun. Það gekk ekki því lífræn ræktun er dýrari og óneitanlega verður það að koma fram í verðlagi. Nú eru viðhorfin gjörbreytt og mun auðveldara að koma lífrænt ræktuðu grænmeti á markað en áður var. Það munar náttúrlega miklu fyrir okkur framleiðendurna en ekki síður fyrir neytendur, þeir vita nú hvar þeir geta gengið að því sem þeir vilja kaupa.

Lífræn ræktun litin hornauga

Er hægt að tala um almenna neytendur lífræns ræktaðs grænmetis, eða er þarna um að ræða nánast einhvern sértrúarflokk?Nú er Þórði sýnilega skemmt. Já, segir hann, lengi vel hélt ég að þetta væri einhver sértrúarsöfnuður, eða a.m.k. að almenningur teldi svo vera. En þetta hefur breyst, nema hvað að víða innan landbúnaðarins er lífræn ræktun enn litin hornauga. Margir telja okkur vera að hafna nútímatækni og hverfa hundrað ár aftur í tímann o.s.frv. En hvað um það, það er auðvitað ekki nema tiltölulega lítill hópur fólks, sem fer í heilsuvöruverslanir, til að gera sín daglegu innkaup; meðal-Jóninn fer í stórmarkaðina. En ég hef tekið eftir því að þar sem þessar vörur komast á búðarborðið, þar seljast þær, að vísu mismikið, en seljast þó. Hinn almenni neytandi er að verða sér meðvitandi um gæði landbúnaðarafurða. Víða í Evrópu og þ.á m. hér á Íslandi höfum við verið að upplifa kreppu vegna lélegra matvæla. Þetta stafar af því að landbúnaðurinn aðlagar sig hagkerfi sem stöðugt heimtar lægra vöruverð. Bændur verða þá að lækka framleiðslukostnaðinn. Auðvitað þýðir þetta að fyrr eða síðar lenda menn í skítnum með allt saman. Þetta sér fólk og fer því sjálfs sín vegna að gera auknar kröfur til þess sem það er að kaupa. Það verður því æ algengara að neytendur vilji geta rakið framleiðslu og söluferli matvæla, alveg frá bóndanum til verslunarinnar.

Af mannlífi í Biskupstungum

Svo við snúum okkur að öðru, hvernig gengur mannlífið fyrir sig hér í Biskupstungum?Hér er mjög fjölbreytt mannlíf. Skálholt setur vitanlega sinn svip á sveitina og svo má ekki gleyma heita vatninu. Það er því að þakka að hér hafa myndast byggðakjarnar, bæði hér í Laugarási og Reykholti, sem sumir kalla enn Aratungu, eftir samkomuhúsinu þar. Þessi þorp hafa myndast kringum gróðurhúsaræktun sem heita vatnið hefur gert mögulega. Nú og svo er hér auðvitað hefðbundinn landbúnaður. En samhliða þorpsmyndun í Laugarási og á Reykholti hefur þörfin á þjónustu og þjónustuúrvali aukist. Þetta er því mjög fjölbreytilegt samfélag, af sveitasamfélagi að vera.

Sérðu fyrir þér að svona þorp inni í landi, eins og þau sem við höfum þegar nefnt og svo t.d. Flúðir og Laugarvatn hér skammt frá, geti orðið andsvar við flóttanum til Reykjavíkur?

Svarið lætur á sér standa, en kemur þó. Jú, Þórður hafnar því ekki að svo geti orðið. Ég er ekki frá því, segir hann, að þrátt fyrir flóttann til Reykjavíkur séu nú ýmsir, sem vilji flytjast þaðan út á land, án þess þó að vilja setjast að í fiskiþorpum. Og þá koma staðir eins og þeir sem við vorum að tala um sterklega til greina.

Nú skilst mér að hér í Laugarási búi ekki nema um eitt hundrað manns. Hvernig er að vera með börn og unglinga í slíku fámenni?

Hér er grunnskóli, sem hefur dafnað mjög á síðustu árum. Það er því ágætt að vera með börn hér, en málið vandast, þegar kemur að unglingunum. Við lifum á tímum fjölmenningar og tilboða, sem fyrst og fremst er beint að unglingum. Það er því von að þeim þyki lífið hér í fásinninu heldur grámyglulegt. Þegar krakkarnir hafa lokið grunnskólanáminu tekur Menntaskólinn á Laugarvatni við, nú eða þá Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi, þ.e.a.s. hjá þeim, sem á annað borð fara í framhaldsnám heima í héraði. Ýmsir fara auðvitað í nám til Reykjavíkur og aðrir láta grunnskólann nægja. Menntaskólinn á Laugarvatni er heimavistarskóli sem og Íþróttakennaraskólinn þar. En þeir sem eru í fjölbraut á Selfossi geta tekið rútu. Það er allt í lagi námsins vegna en óneitanlega verða þeir krakkar sem hér eiga heima og sækja skóla á Selfossi útundan í félagslífinu. Þess vegna flytja sumir fjölbrautaskólakrakkarnir í nemendaíbúðir á Selfossi.

En skilar þetta fólk sér heim í hérað að námi loknu?

Það er misjafnt. Landbúnaðurinn hefur átt undir högg að sækja í mörg ár og það hefur sín áhrif. Sveitamenn sem fara í langskólanám koma því sjaldnast aftur. En aukin atvinnutækifæri, samfara bættum samgöngum eiga eftir að breyta þessu, segir Þórður, garðyrkjubóndi á Akri í Laugarási, að lokum.

 

Skifað af Pétri Hafstein. Tekið úr greinarsafni MBL.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

2 comments on “Frá draumum um jakkaföt og ríkidæmi til ylræktar”

(354) 486 8966 
Garðyrkjustöðin Akur, Laugarási,
801 Bláskógarbyggð, Ísland
phoneglobeenvelope-square
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram