Næstu skref fyrir lífræna ræktun

IFOAM hefur unnið að því að byggja upp nýtt vottunarkerfi fyrir lífræna framleiðendur. Kerfið á að minnka yfirbyggingu vottunarkerfana með því að auka gagnsæji framleiðslu og auka upplýsingaflæði til neytenda. Einnig er kerfið hugsað til að auka aðkomu neytenda í vottunarmálum. Við tókum okkur til og þýddum kynningu IFOAM á þessu róttæka kerfi sem mun auka lífræna framleiðslu um allan heim.

Þátttökutryggingarkerfi (PGS)

Sameiginleg framtíðarsýn, sameiginlegar hugsjónir

Það eru til mörg þátttökutryggingarkerfi (e. Patricipatory Guarantee Systems; PGS) sem þjóna bændum og neytendum um allan heim. Þótt aðferðafræði og ferli séu ekki allstaðar nákvæmlega eins er merkilega mikið samræmi milli þeirra kjarnaþátta sem byggt er á í öllum ríkjum og meginlöndum. Þættirnir og einkennin sem lýst er hér sýna fram á sameiginlega framtíðarsýn okkar en er ekki ætlað að beina þeim PGS-kerfum sem nú eru við lýði eða verða til síðar með afgerandi hætti inn á braut samræmingar eða „stöðlunar“. Lífæð þessara kerfa er sú staðreynd að bændurnir og neytendurnir sem þau þjóna hafa sjálfir sett þau á stofn. Þannig eru þau tekin upp og sniðin að þeim samfélögum, staðháttum, stjórnarfari og mörkuðum sem er að finna þar sem þau eru upprunnin.

Þessi samantekt um meginþætti og megineinkenni er því lögð fram af fullri virðingu í þeim eina tilgangi að varpa ljósi á þættina sem eru gegnumgangandi í öllum PGS-kerfum – þá sameiginlegu framtíðarsýn og sameiginlegu hugsjónir sem tengja þau.

Ætlunarverk starfshópsins

PGS-starfshópurinn hyggst þróa, greiðka fyrir og ýta undir þátttökutryggingakerfi (PGS) um allan heim. Á meðan við vinnum að því að draga fram og mynda lykilþætti og einkenni PGS-kerfis leggjum við okkur fram við að skoða með opnum hug og án þess að undanskilja nokkuð þær mörgu og ólíku birtingarmyndir sem PGS kunna að hafa í starfi sínu.

PGS-hugmyndafræði sprettur af hugmyndafræði um lífræna ræktun

Þátttökutryggingarkerfi byggja á sömu hugsjónum og réðu för í lífrænni ræktun þeirra bænda sem ruddu fyrstir brautina. PGS-kerfi eru háð vistfræðilegri grundvallarnálgun við landbúnað þar sem ekki eru notaðir plágueyðar eða áburður með tilbúnum íðefnum eða erfðabreyttar lífverur og framfleytir auk þess bændum og landbúnaðarverkamönnum í varanlegu öryggisneti sjálfbærni og félagslegs réttlætis. PGS-kerfin byggja einkum á beinni aðild að svæðisbundnum markaði og stuðla þannig að samfélagsstyrkingu, umhverfisvernd og almennum stuðningi við svæðisbundinn efnahag.

Hugmyndafræði PGS (grunngildi)

PGS þátttökutryggingarkerfi eiga upp að vissu marki sameiginlegt markmið með vottunarkerfum þriðja aðila um að veita neytendum sem sækjast eftir lífrænni framleiðslu trúverðuga framleiðsluvottun. Munurinn felst í nálguninni. Eins og nafnið gefur til kynna er ekki einungis hvatt til beinnar þátttöku bænda og jafnvel neytenda í vottunarferlinu heldur kann hennar að vera krafist. Slík aðild er fyllilega raunhæf þegar í hlut eiga þeir smábændur og beinu, svæðisbundnu markaðir sem líklegast er að PGS-kerfin þjóni. Virk þátttaka hagsmunaaðila leiðir til styrkari stöðu þeirra en henni fylgir einnig aukin ábyrgð.

Þetta krefst þess að PGS-kerfin leggi mikla áherslu á að auka þekkingu og færni – ekki eingöngu hjá framleiðendum heldur einnig neytendum. Bein afskipti af því tagi gera PGS-kerfum kleift að vera síður íþyngjandi hvað varðar kröfur um skriffinnsku og skýrslugerð – sem er mikilvægt, því PGS-kerfi vilja ekki útiloka neinn í viðleitni sinni til að fá smábændur inn í lífrænt framleiðslukerfi. Stefna PGS-kerfanna stangast algjörlega á við þau vottunarkerfi sem eru við lýði og byggja á hugmyndinni um að bændur þurfti að sýna fram á að þeir uppfylli skilyrði til að hljóta vottun, því nálgun PGS byggir á heilindum og undirliggjandi trausti. Á þeim grunni er byggt af einstöku gagnsæi og pukursleysi í umhverfi þar sem valda- og stjórnunarstigum hefur verið fækkað eins og kostur er.

Lykilþættir

 1. Sameiginleg framtíðarsýn

Helsti styrkur þátttökutryggingarkerfanna felst í þeirri meðvituðu og sameiginlegu framtíðarsýn sem bændur og neytendur hafa á grunngildin sem byggt er á og ráða ferðinni innan þeirra. Þótt PGS-kerfi kunni að vera ólík hvað varðar beina þátttöku dafna þau vegna virkrar meðvitundar um hvers vegna, hvernig og ekki síst HVERJUM þau þjóna.

 1. Þátttakan

Þátttökutryggingarvottun er byggð á aðferðafræði sem gengur út frá mikilli aðkomu þeirra sem hafa áhuga á framleiðslu og neyslu þessara fæðutegunda. Grunngildi og reglur um lífræna framleiðslu eru ákvörðuð og þeim beitt með framlagi allra hagsmunaaðila – framleiðenda, ráðgjafa og neytenda. Trúverðugleiki gæða framleiðslunnar leiðir af þátttökunni.

 1. Gagnsæi

Allir hagsmunaaðilar, einnig bændur, þurfa að gera sér grein fyrir nákvæmlega hvernig votturnarkerfið almennt er, ferlinu sjálfu og hvernig ákvarðanir eru teknar. Þetta þýðir ekki að allir viti sérhvert smáatriði heldur fremur að þeir hafi grundvallarskilning á því hvernig kerfið virkar. Fólk ætti að þekkja forsendurnar fyrir ákvörðun um vottun, ekki síst ástæðurnar fyrir því að eitthvert býlið fær hana ekki. Af þessu sést að einhver rituð gögn þurfa að liggja fyrir um PGS-kerfið og að skjölin þurfi að vera aðgengileg fyrir alla viðkomandi aðila.

Einkamál og viðkvæmar viðskiptaupplýsingar framleiðenda sem PGS-kerfinu kunna að berast í starfi sínu skal fara með sem trúnaðarmál. Þann trúnað má þó ekki nota til að hvika frá grundvallarkröfunni um gagnsæi. Þetta kann að virðast stangast á við gagnsæi en nauðsynlegt er að setja mörk á milli einkamála og viðkvæmra viðskiptaupplýsinga annars vegar og aðgengis að upplýsingum til að tryggja aðgengi að upplýsingum í þágu gagnsæis.

 1. Traust – „nálgun byggð á heilindum“

Talsmenn PGS-kerfa aðhyllast þá hugmynd að bændum sé treystandi og að lífræna vottunarkerfið eigi að tjá það traust. Það á að endurspegla getu viðkomandi samfélags til að sýna þetta traust með beitingu mismunandi félagslegra og menningarlegra stjórntækja sem tíðkast innan þess og sinna nauðsynlegu eftirliti til að tryggja lífræn heilindi lífræna landbúnaðarins sem þar er stundaður. Með því eru viðurkennd ýmiss konar menningarlega sértæk (svæðisbundin) megindleg og eigindleg eftirlitskerfi til að sýna fram á og mæla lífræn heilindi og þeim er fagnað. Þau eru lykilatriði í vottunarferlinu.

 1. Þekkingaröflun

Tilgangurinn með flestum PGS-kerfum hefur verið að veita meira en vottun og einnig hefur verið stefnt að því að útvega tæki og kerfi til að styðja við sjálfbær samfélög og þróun innan lífræns landbúnaðar þar sem afkoma og kjör bænda yrði bætt. Mikilvægt er að vottunarferlið leggi sitt af mörkum við að byggja upp þekkingarnet með aðkomu allra þátttakenda í framleiðslu og neyslu lífræna varningsins. Skilvirk þátttaka bænda, ráðgjafa og neytenda í útfærslu og staðfestingu á grunngildum og reglum leiðir ekki einungis til myndunar trúverðugleika lífrænu framleiðslunnar heldur einnig til varanlegrar þekkingaröflunar sem eykur hæfni samfélaganna sem að henni koma.

 1. Lárétt vald

Lárétt vald merkir sameiginlega stjórn. Vottun lífrænna eiginleika framleiðsluvöru eða ferlis er ekki einungis á hendi fárra aðila. Allir aðilar að þátttökuvottunarferlinu bera sömu ábyrgð og eru jafnfærir um að tryggja lífræna eiginleika framleiðsluvöru eða ferlis.

Lykilþættir PGS

 1. Viðmið ákvörðuð af hagsmunaaðilum með lýðræðislegu þátttökuferli allra, en ævinlega í samræmi við almenna skilgreiningu á því hvað lífræn framleiðsluvara er. Viðmiðin ættu að örva skapandi hugsun, sem einkennir lífrænan landbúnað, en ekki hefta hana.
 2. Grasrótarsamtök: Líta ber á þátttökuvottunina sem afrakstur félagslegrar samvirkni, byggða á virkum samtökum allra hagsmunaaðila.
 3. Hentar vel landbúnaði á smærri býlum því valkvæð þátttaka og lárétt valdafyrirkomulag kerfisins auðveldar betur viðeigandi og ódýrari vottunarkerfi og undirstrikar reyndar, hvetur til og fagnar því að neytendur skipti við smábændur.
 4. Grunngildi og verðmætamat sem bæta kjör og velferð bændafjölskyldna og styðja við lífrænan landbúnað.
 5. Skjalfest rekstrarkerfi og ferli. – Einhverrar skriffinnsku kann að vera krafist af bændum en þess er einnig vænst að þeir sýni á annan hátt hollustu sína og heilindi í lífrænum landbúnaði og allt slíkt verður einnig skráð hjá PGS.
 6. Kerfi til að staðfesta að bændur fylgi gildandi viðmiðum, sem örvar þátttöku og skipulag og gerir ráð fyrir þekkingaröflunarferli allra hagsmunaaðila.
 7. Kerfi til að styðja bændur við að framleiða lífrænan varning og fá vottun sem lífrænir bændur, sem nær yfir vettvangsráðgjafa, fréttabréf, heimsóknir á býli, vefsíður o.s.frv.
 8. Ætti að hafa brýnustu gögn, til dæmis skuldbindingu bónda um að hann/hún sé samþykkur gildandi viðmiðum.
 9. Signet eða merkimiðar sem sanna að þetta sé lífræn vara.
 10. Afdráttarlausar og áður skilgreindar afleiðingar fyrir bændur ef þeir fylgja ekki viðteknum stöðlum, atferlið skráð í gagnagrunn eða gert opinbert á einhvern hátt.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *